Ferðalagið ....

...  Í upphafi skyldi endinn skoða heyrði ég sagt.  Það er skynsamlegt að ná að skoða endann vel áður en við leggjum í það.  Lifa í örygginu og láta ekkert koma sér á óvart.  Það er oft betra að hvíla vængina og kúra lengur í hreiðrinu í stað þess að stökkva af stað og svífa í þeirri óvissu með lendingarstaðinn.

Ég lagði af stað í ferð fyrir mörgum árum, var búin að skoða byrjunina þokkalega vel og viss það að ég var að fara.  Ég fann að það var togað í mig úr öllum áttum, heyrði hvísl hér og hvísl þar.

Það var ekki eins og ég væri bundin fyrir og kæmist ekki hót.  Með litla snót á arminum sem stóð vart úr hnefa ákvað ég að leggja land undir fót, fara því minn reitur var annarsstaðar.  Við fengum meðbyr, unnum í lottó svo ferðalagið gæti orðið, við héldum af stað hýrar eins og strengjabrúður á vit ævintýranna.

Ég hugsaði aldrei eitt andartak að ég væri að gera eitthvað rangt, var viss að örlögin sem öskruðu væru að gefa mér réttar vísbendingar.  Eftir ýmsan frágang, reddingar kyss og knús á fjölskyldumeðlimi hélt konan út í heim með litla ráðskonurassinn og var fyrsti áfangastaður Holland.  

Við vorum fullar af ferðaþrá og í hjarta mínu var enginn ótti né efi um að ég væri að gera rangt.  Ég hafði lagt af stað í ferðalagið okkar.  

BirtaÉg var með allt sem ég átti í lífinu, litla stúlku í hægri hönd og ferðatösku í þeirri vinstri.  Var spennt og tilbúin.

Það var kallað um borð og leið lá til Alicante.  Spánn, við erum á leiðinni.  Það var notaleg að koma til Spánar í lok nóvember.

Lífið er ekki alltaf dans á rósum en það er vissulega þess virði að prófa nýjar leiðir og gera nýja hluti.  Við erum jafn fær og við erum viljug!

Síðan eru liðin 12 ár og lífið á Spáni hefur verið gott við okkur mæðgurnar enda höfum við eftir megni reynt að vera góðar við lífið.  Það er gott að hugsa til baka og þakka ég fyrir það að hafa látið drauminn rætast.  Einn af svo mörgum draumum.

Við eigum milljón drauma sem allir eru vel verðugir að draga fram í dagsljósið.  Það þarf að sinna draumunum vel svo þeir rætist og halda vel utan um lífsgleðina er tendrar lífsleiðina okkar.

Í dag er lita hnátan mín 15 ára gömul, sjálfstæð eins og hún reyndar hefur ávallt verið.  Dugleg stelpa og klár.  Við búum í litlum og fallegum smábæ suður af Alicante með strákunum okkar.  Annar nánast 45 og hinn 10.  Við erum sko heppnastar af öllum Heart

Ég man þegar ég byrjaði að vinna á veitingastað nánast ótalandi á spænskri tungu.  Ég lagði mig fram við að gera hlutina vel og mætti jafnan fyrr til starfa og fór seinna heim.  Eigandinn þá eldri kona sem allir óttuðust fékk eitthvað dálæti á mér eftir að ég lét hana heyra það.  Hún var peningaóð og nokkuð gráðug.  Ég sagði henni að allir peningar í heiminum gætu ekki fært henni hamingjuna og hún ætti kanski að íhuga að gera eitthvað fyrir sjálfa sig áður en það væri of seint.  Lengi vel sendi hún dóttur minni gjafir þrátt fyrir að ég væri löngu hætt að starfa undir hennar stjórn.

Ég man ekki alveg hvað það var sem kom uppá en við grenjuðum báðar, ég kasólétt og hún var tekin afsíðis í róandi te.  Ég hlæ létt inní mér þegar ég hugsa um þennan tíma, hvað það var erfitt á meðan á því stóð en eftirá gefandi.  Ég fer stundum og heilsa uppá gömlu konuna í dag, hún er bitur blessunin í eigin skinni.  

Af einhverjum völdum dettur mér lagið, hún var ung gröð og rík í hug.  Segjum það gott í bili!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Segðu frá því líka hvernig þú hittir Fjallið..... aftur

Ég fyllti út eyðublaðið í þríriti við útganginn

Lovjú

Hrönn Sigurðardóttir, 6.11.2010 kl. 20:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband