3.2.2011 | 10:06
Ruggustólar ...
seint að sofa og snemma á fætur.
Mig dreymdi draum, kom úr draumaheimi með skýra mynd í huganum. Ruggustólar út um allt! Það hlýtur að vera fyrir góðu að fá hugmynd í svefni, vakna og ganga með hana í maganum. Sjá hana þroskast og rugga sér, sjá konuna með prjónana sína er lætur hugann líða.
Konan er búin að ganga frá eftir matinn, börnin vöskuðu upp diskana. Allt tandurhreint. Samheldni fjölskyldunnar er mikilvæg, lítið fyrirtæki sem þarf að skila arði í ást og umhyggju
Við þurfum að vera samheldin og styðja hvort annað, kenna hið jákvæða og miðla hæfileikanum að sjá ljósið í myrkrinu. Án myrkurs væru skuggarnir daprir og ósýnilegir. Grátandi í birtunni án skilyrða dýptar. Ég lofa ljósið í myrkri, elska ljósaskiptin, þær breytingar er lífið gefur.
Möndlublómin
Nýr dagur eftir góða nótt.
Ég stóð í fallegri birtu á akrinum. Var búin að keyra hingað og þangað eftir fallegum trjám. Ég fann á endanum fallegan stað og óð út á akurinn. Ég sökk í moldina, varð strax ástfangin af einu trénu er talaði hvað mest til mín. Nánast dillaði sér! Það var svo mikið líf á akrinum og ég varð eitt í einu. Umferðin meðfram sveitaveginum hvarf úr huga mér á meðan ég myndaði þessi fallegu tré, þó aðallega eitt þeirra.
Tilraunaeldhúsi lokið í morgun, á hlóðum mallar undarleg súpa, líst ekkert á hana en ilmurinn er framandi enda allskonar kryddblanda í loftinu. Set lítið af öllu, engifer, koríander og kúmen ásamt papríku. Held að paprikunni hafi verið ofaukið en við sjáum til þegar að suðutímanum lýkur.
Ég veit fyrir víst að konan sem situr og ruggar sér blíðlega fram og til baka, prjónar og leggur þá frá sér í kjöltuna. Hún er sæl og rjóð og bíður dagsins. Rétt eins og ég.
Framundan er heill dagur bjartur og fagur.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Gleðilegan sunnudag
Hrönn Sigurðardóttir, 6.2.2011 kl. 08:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.