Næturblús ...

Sit í nóttinni og horfi í náttmyrkrið sem er þétt og fallegt.  Mér er hlýtt og langar að fara berfætt út og finna faðm nætur læsa sig í hjartnu mínum.

Það kom fínn úði svo það væri notalegt að tippla út og kæla sig aðeins niður.  Þessi stund fær mig til að hugsa um fótaböðin sem ég tek á sumrin.  Ég set kalt vatn og salt, stundum mýkingarefni í fótabaðið og nóg af muldum ís.  

Heyrði sagt að ef það stæði eitthvað í þér þá væri eitt besta ráðið að fara í, ísmolafótabað!  Sel það ekki dýrara hehe  

Vorið er angandi við Iberíuskaga það eru glampandi sólardagar, mistur sem skilur að og jafnvel þungskýjað sem þýðir að jarðvegur á von á vökvun.  Ég er hrifin af þessari árstíð því hún er svolítið íslensk í minningunni.  Já, það er oft hægt að fitja uppá fortíðinni þegar minningarnar eru sóttar.

Svolítið sniðugt með minningar, ilm og hugsun.  Hvernig sálin laðar fram boð um löngu orðna hluti, ilmur af fólki, ilmur af vanillu, ilmur, allskonar ilmur er kveikir í okkur.  Það er oft á þeirri stundu að kona fitjar uppá fortíðarflík og prjónar stanslaust í minningarnar og ef fram fer sem horfir mun ég geta spókað mig um í fallegri fortíðarflík þegar vor höfgar fyrir sumri.

En nú er það ástarfundur með nóttinni.  Held hún ætli að hvísla að mér sögum um löngu liðnar nætur, sýna mér myndbrot og gefa mér nokkur til viðbótar!  Það er kanski vissara að sækja kærleiksteppið og vefja því utan um okkur því nóttin getur verið hrjúf á sinn blíða máta.  Ég held ég halli mér að henni því brátt fara augun að síga og draumalandið kallar.

Ég veit að um leið og ég gef mig þá tekur á móti mér nýr ævintýraheimur í landi drauma, ég þarf að halda áfram starfi mínu þar og hvíla kroppinn sem neitar að sofa.

Góða nóttina í hjartað þitt.  Ég ætla aðeins að slóra áður en ég drep andvökupúkann InLove


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Langar þig aldrei til að flytja alfarin yfir hafið til lands elds og ísa?

Knús í hjartað þitt

Hrönn Sigurðardóttir, 2.5.2011 kl. 17:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband