Hellnahverfi við Miðjarðarhafið

Í tiltölulega nýstofnuðum listamannahóp er fékk heitið MASM (movimiento artistas de San Miguel de Salinas) héldum við 3 konur úr þeim fríða hópi í átt að bæ er heitir Rojales og er í Alicante héraði.

Ég hafði oft farið þangað og meir að segja djammað eins og prinsessa þegar ég varð fertug en það er nú önnur ella og lítið farið yfir það ævintýri hér og nú.

Bærinn býr svo sem ekki yfir neinum sérstökum sjarma nema það er lækjarfarvegur er rennur um hann miðjan og svo er byggð við fjall eða hól tja, hellana ...  Já, þarna leynast um 200 hellar sem gefa átti til listamanna fyrir x mörgum árum þar sem ekki tókst að gera svæðið upp á kostnað bæjarins.  Þessar upplýsingar eru fengnar frá sænskum listamanni er við hittum.  Þessar upplýsingar eru þó óstaðfestar!

Sænska listakonan er kallar sig Aida talaði bjagaða spænsku og var protótýpa af listamanni og hún var bara skemmtileg og létt svona klikk.  Hellirinn hennar var kaldur og mikið um verk sem við skoðuðum af natni.  Það var sérlega mikið rusl í hennar helli en henni þykir það afar sjarmerandi og stingur hún þ.a.l. svolítið í stúf við það sem félag listamanna vilja gera á svæðinu.

Ég tók engar myndir af hennar helli, geri það við betra tækifæri í næstu ferð!

Rojales 010

Kona að fótstýra leðursaumavél

Við kíktum á leðurverkstæði en þar mátti finna allskonar leðurvarning til sölu sem konan gjarnan vildi selja þrátt fyrir að leggja enga pressu á okkur.  Ég hefði líklegast fjárfest í hliðarveski en var aldrei þessu vant vanbúin fjárhagslega séð.  Við kvöddum konuna og héldum för okkar áfram um hellnahverfið.  Við heimsóttum upplýsingamiðstöðina og tókum bæklinga héldum síðan til formanns listamannafélagsins og áttum tal við hann.  Settum niður dagsetningar á sýningar og mun ég halda sýningu í hellnahverfinu í Rojales þann 7unda Október 2012.  Verður bara gaman að undirbúa hana.

Rojales 005

Ascensión og Maire í fremsta sýningarsalnum

Það var samsýning þegar við komum og var inntakið mismunandi, sumt áhugavert og annað ekki eins og gengur og gerist þegar smekkur manna er misjafn.  Hver og einn er heill heimur út af fyrir sig og smekkur manna misjafn eftir því.  Bara gleðilegt að hafa farið í þessa skemmtilegu ferð með þeim stöllum.  Veðrið sveik okkur ekki, glampandi sól og sæla.

Rojales 021

Krossarnir þrír, þrautagangan er Jesús fór

Rétt við hellnahverfið sá ég krossana þrjá en þeir tákna krossfestu Jesú Krists, litlu krossarnir eru merki um þegar hann hnaut á göngu sinni.  Þetta sagði Ascensíon mér en hún er eins og talandi alfræðiorðabók skvísan.

Góður dagur á enda og við tekur kvöldverður á asískum stað.  Eitthvað ætti að vera í boði fyrir alla, konur og kalla, með hár og skalla eða hvernig svo sem þessi vísa var.

Eigið yndislega helgi öll sem eitt og munið að lífið er núna.  Túrílú til þín!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband