Litfögur og fín ....

.....  það er sólin sem stingur sér í dýpi hjarta míns. 

Geislarnir berjast í kapp hver við annan, syngja.  Töfrar söngsins festa sig við andlit mitt og leggi.  Ég get farið berleggjuð og örmuð út, staðið og látið geislana syngja mér lag.  Eitt lítið lag er hvílir í sálinni,  vaggar sem barn í faðmi móður.  

Lagið er gamalt lag, skemmtilegt og kippir í kroppinn. Skemmtilegt.

Sem minnir mig á að þversögn þess að vera skemmtilegur er lífs lifandi manneskja.  Ég kynntist "honum" fyrir 2 árum og ég man hvað mér þótti maðurinn hundhelvíti leiðinlegur.  Ég hef stundum hugsað um af hverju maðurinn var svona leiðinlegur en það var ekki eitt, heldur allt.  Samt get ég ekki hætt að hugsa um að hann gæti ekki verið svona leiðinlegur, ekki möguleiki. 

Niðurstaðan, ég var leiðinleg, snobbhænsni dauðans og allt of falleg.  Með þessum kostum dró ég allt hans leiðinlega í ljós.  I´m the boring one.

Að vera of fallegur fyrir fylgdina getur stundum skemmt, komið hinu neikvæða á framfæri.  Fyrir utan ég var ekki hans "cup of tea" og ef það skiptir einhverju máli hann var sko ekki að gera neitt fyrir mig.  

Möndlutrén

Möndlutréð

Fegurðin leynist allstaðar.  í hjartanu hugsa ég um þig, þá einu fegurð er minningin kann.  Ég elska fegurðina í deginum, ljósið og myrkrið er togast á um hjarta mitt.  Það er nostalgía sem breiðir yfir mig þegar ég horfi á ykkur berjast, fyrir degi, fyrir nótt.

Nótt og Dagur, systkin er láta ljós sitt skína hvort á sinn dásamlega máta.  Í nóttinni elska ég að vera til, baða mig í þögninni, nýt þess að finna hjartslátt dags er rennur upp.  Ég verð samt að hvíla mig en tími því varla.  Þegar klukkan er langt gengin í 04 veit ég að ég verð að hvíla augun, spegil sálar.  Ég sef samt ekki lengi því ég er vöknuð kl. 08 eða 09, tími ekki að sleppa þér.  Þú sem lifir í lífi mínu.

Svo koma nætur, dagar sem ég hverf í eigin skinn og verð ósýnileg.  Það er gaman.  Bezt!

Úr engu í allt þá er Hr. Skemmtilegur bara ansi skemmtilegur, nóttin björt og dagurinn myrkur.  Allt eins og sálinni skapast á þeirri stundu.

Ég elska tilveruna sem skjallar mig, elska umhverfið er hlúar að mér.  Ég er prinsessa!

Töfrandi veröld 

þú ert mín

mín

bara mín

með töfrum

sjáaldur blikar

ég dreypi

af bikar

eilífðar.

Ég er prinsessa á laugardegi

litfögur og fín.


Ruggustólar ...

seint að sofa og snemma á fætur.

Mig dreymdi draum, kom úr draumaheimi með skýra mynd í huganum.  Ruggustólar út um allt!  Það hlýtur að vera fyrir góðu að fá hugmynd í svefni, vakna og ganga með hana í maganum.  Sjá hana þroskast og rugga sér, sjá konuna með prjónana sína er lætur hugann líða.

Konan er búin að ganga frá eftir matinn, börnin vöskuðu upp diskana.  Allt tandurhreint.  Samheldni fjölskyldunnar er mikilvæg, lítið fyrirtæki sem þarf að skila arði í ást og umhyggju Heart

Við þurfum að vera samheldin og styðja hvort annað, kenna hið jákvæða og miðla hæfileikanum að sjá ljósið í myrkrinu.  Án myrkurs væru skuggarnir daprir og ósýnilegir.  Grátandi í birtunni án skilyrða dýptar.  Ég lofa ljósið í myrkri, elska ljósaskiptin, þær breytingar er lífið gefur.

Möndlutrén

Möndlublómin

Nýr dagur eftir góða nótt.

Ég stóð í fallegri birtu á akrinum.  Var búin að keyra hingað og þangað eftir fallegum trjám.  Ég fann á endanum fallegan stað og óð út á akurinn.  Ég sökk í moldina, varð strax ástfangin af einu trénu er talaði hvað mest til mín.  Nánast dillaði sér!  Það var svo mikið líf á akrinum og ég varð eitt í einu.  Umferðin meðfram sveitaveginum hvarf úr huga mér á meðan ég myndaði þessi fallegu tré, þó aðallega eitt þeirra.

Tilraunaeldhúsi lokið í morgun, á hlóðum mallar undarleg súpa, líst ekkert á hana en ilmurinn er framandi enda allskonar kryddblanda í loftinu.  Set lítið af öllu, engifer, koríander og kúmen ásamt papríku.  Held að paprikunni hafi verið ofaukið en við sjáum til þegar að suðutímanum lýkur.

Ég veit fyrir víst að konan sem situr og ruggar sér blíðlega fram og til baka, prjónar og leggur þá frá sér í kjöltuna.  Hún er sæl og rjóð og bíður dagsins.  Rétt eins og ég.

Framundan er heill dagur bjartur og fagur.


Cool ....

er heilluð, heiluð í eilífðinni sem er upphaf og endir, endalaus ferð frá a-ö með viðkomustað á fallegri stjörnu.  Ljósið eina skín svo fallega þegar ég opna augun.  Ég sest niður og hlusta á umhverfið, nið lífs og ljómans InLove

Ég vakna og þvæ mér í framan.  Er þreytt!  Fór í spinning í gær og þjálfarinn, Noelía hrokkinhærð aðlaðandi stúlka, slátraði hópnum.  Það komust færri að en vildu.  Ég fæ mér nýkreistann appelsínusafa, kiwi og ananas.  Ávextir til að ræsa hið líkamlega líf.

Ég á fund með 2 konum, íslenskum og glæzilegum á fimmtugsaldri.  Þær eru í ferðalagi og langar að skyggnast inní ókunna hluti sem ég kann og þekki.  Við eyðum deginum við ströndina, í bænum og skröfum.  Það er gaman.  

Ýmsar hættur leynast þar sem síst skyldu og við förum varlega.  Sitjum saman á þægilegu kaffihúsi eftir að hafa lifað af árás.  Íllvígur hundur steig í veg okkar, óþægileg tilfinning.  Þýskur Scheffer missti sig og við drógum djúpt andann.  Hann virtist svo saklaus þar sem hann kom tipplandi, þær vildu leika við hann en mér leist ekki á blikuna.  Sneri baki í hvuttann og sagði þeim að koma.  Hann ílfraði og sýndir tennurnar.  

Hvolpurinn

Var að sjálfsögðu með leynivél í svarta auganu.

Við gengum inní sápukúlu, hægt og varlega með hundinn fálmandi í afturendanum á mér.  Ég kaus að vera síðust þar sem ég var guidinn, þar sem ég hafði mesta coolið.

Það er eitthvað svo sexý við það að hafa coolið á hreinu, vera hræddur og hugaður á sömu stundu.

Það var gott að tilla sér niður fá sér einn cortado (sterkur kaffi með smá mjólk í litlu glerglasi).

......  sexY

 


Við erum sköpuð fyrir hvort annað .....

Hann er hlýr og blíður, leggur arma sína um hálsinn og nuddar mig.  Ég lygni aftur augun og læt nuddið fara lengra í huganum og er komin í annan heim.  Hann er dökkur yfirlitum, styrkur og fámáll.  Það er svo sem allt í góðu því ég þarf engar umræður, þarf engin gæluyrði því unaður nuddsins fylgir mér á aðra vitund þess að vera.

Ég sting honum í samband og set á stillingu 2, marrið er eins og í litlum traktor.  Ég verð að passa mig að hafa hann ekki of lengi tengdann, ég nýt þess.

45€ eins og tveir tímar hjá nuddara.  Þrællinn minn mun fylgja mér næstu daga, vikur og mánuði InLove  Er eins og elskhugi hugans og nautnastund holdsins.  Maðurinn minn er lítið hrfiinn af honum og þykir hann fara mér ílla.  Hálfgerð geimtilfinning að eiga við hann.  

Hálsnuddarinn

Mætti halda að nuddarinn sé ógnvæglegur

Það er varasamt að nota hann lengur en í 10 mín í senn en ég viðurkenni að hafa misnotað vininn fyrstu dagana og varð ég undarlegri í höfðinu heldur en ég að mér að vera.

Eins og hann er góður þá er hann ekki beint klæðilegur en ég er engin tepra og læt mig hafa það, þótt með einsdæmum ófríð sé á meðan á unaðinum stendur.

Margt gott í góðu þótt fegurðin gjaldi þess.

 


Ég er kona og ég elska það .....

.....

Það er á stundum sem þessari, akkúrat núna!  

Ég spyr mig og hlusta, fæ engin svör, engan hljóm.  Hvað með morgundaginn?

Hjá mér er enginn morgundagur, það veit ég því ég lifi núna.  Lifi í núinu. 

Enginn morgundagur á 5 ára planinu Heart

Hins vegar sé ég morgundaginn, vikuna, mánuðinn og árið.  Sé og myndgeri framtíðina og veit svo margt, jafnframt ekkert.  Að vita allt í engu og ekkert í öllu !!!!

Á morgun segir sá lati og ég held dauðataki í þann lata.  Við erum par þessa dagana W00t  Ég fæ líklega leið á honum því ég nenni ekki endalausri leti.  Það er tími tunglgöngu, stjörnumerkja og the power of pink.  Ekki spyrja en jú það er þessi endalausi kvenleiki sem heillar.  Vera kona og elska það.

Við Sjávarmál

Án titils, olía á striga 100 x 100

Ég get grátið og brosað á sömu mínútunni.  Ég hlusta og hughreysti, sendi bros og blíðu, gef þér faðm og hlýju.  Leiði hönd þína og kyssi á "báttið" ég er.  Er hér þegar þú þarft á mér að halda.  Ég er kona.

Það er gott að vera kona.

 


Fugl eða fiskur ...

Er í vafa.  Veit hreint ekki hvort ég fari í sporðinn eða setji á mig vængina.  Snerta botninn eða taka flugið og svífa yfir himingeim.  Líklega hvorugt.  Fer bara í Hello Kitty sokkana mína og þægilega gönguskó.  Viðra mig á jörðinni enda er það staðurinn minn.  Hingað var ég send fyrir rúmlega 42 árum í hið merka hlutverk manneskjunnar.  Í lífsins skóla.

Tíminn líður mishratt og þykir mér hann hafa gefið í sérstaklega eftir að börnin kusu sér áningarstaðinn.  Nú erum við saman að styðja hvort annað, reyna á hvort annað.  Brosum, hlæjum, grátum og grettum okkur.  Finnum fyrir hverjum degi eins og nýju ævintýri, nýrri brók.

Sjómannskonan

Sjómannskonan, pastel á pappír

Í dag er laugardagur, ég fer í laugardags"júníformið" kann ekki annað.  Gæti kanski lært eitthvað annað ef ég bara nenni.  Tifið í klukkunni slær taktinn og ég vagga mér í lendunum.  Þetta er svona dagur sem allt getur gerst.  Hversdagurinn fer í hátíðlega flík og við stöndum saman, andardráttur almættis og ég, bara 2 ein.  Heart

Ég veit það að ferðalagið styttist og í huganum rokkar tíminn hraðar er takmarkar rýmið.  Síðasti neysludagur stendur hvergi á umbúðunum, endalaus uppákoma og óvissa.  Það er enn gott bragð af lífsneystanum, ég er róleg í deginum.  

Það er gott að snerta moldina.

 


Skiptir á sléttu .....

 Kuldinn.  Það er þessi tilfinning sem hann skapar, skerpir á frumum líkamans, þær standa í stað.  Stend nakin.  Horfi og spring úr hlátri.  Ég er glöð í kuldanum, svo nakin því ég bara yngist, er frosin í biðröðinni.  Röðin er löng, svo löng að ég sé hvorki upphaf né endi.  Veit bara að minn staður nálgast, ég er viðbúin að taka á móti brauðmolum, opna gogginn og veifa hendi.

Ég ætti kanski að stíga úr þessari röð, finna aðra slóð.  Spyr mig?  Tíminn er afstæður og ég stíg úr endalausu röðinni, hún er hringur!  Hið fullkomna tákn eilífðar.  Þarna stóð ég nakin í eilífðinni og fór hring eftir hring eftir hring.  Heart

Ég leggst á hnén, finn æskuna sem líður eins og tær spræna niður fjallshlíðina.  Hún breiðir úr sér verður styrkari eftir því sem hlíðin nær að sameinast hafinu.  Ég er hluti af hafinu og ætla að taka sprett.  Hef engu að tapa.  Öryggið í eilífðinni fylgir mér í hafinu.  

Konan við hafið

Konan við hafið

Það er kominn tími að baða sig í ljósinu, ná tökum á hinu óþekkta.  Hafið er úfið.  Eða er það hugur minn?  Ég tek hugann og set hann í sápukúlu og bið Guð að geyma hann í smá tíma, það er úfin hugsun er fær hvíld á meðan hafið heilar konuna.  Konan við hafið er sæl Heart

Þegar ég lýk sundferðinni mun ég taka á móti sápukúlunni minni, taka af mér sporðinn.

Við skiptum á sléttu.


Hráefni hugans.

Blóðkornin rífa sig laus og fara eins og þrumuský eftir göngustíg hjartans, konan er rjóð í kinnum, les orðabók.  Það er kallt úti sem fær hjartað til að slá örar og hugann til að taka flug.

Í báða fætur styrk, stendur hún storminn og veit að þá er kærleikurinn hjartanu beztur  Heart  Svona er lífið, í öllum regnbogans litum rétt eins og vinirnir er varpa fallegum skuggum og ljósbrotum í fangið.  Svo getum við tekist hönd í hönd og farið saman að upphafinu, séð rótina og lagt okkur hana til munns.

Í kvöld ætla ég að elda regnbogasúpu með dassi af bleiku glimmeri, 1 dl af kærleik og strái svo vinskap þínum saman við og ég mun seðjast fyir lífið, gef þér með mér.  Það er þessi tilfinning sem nærir svo vel.

Kona og blóm

Það er einhver ólýsandi forvitnií mér, ég stíg sporin í áttina, langar að vita meira, fæ mér bara kaffidreitil og hugleiði það að hvolfa bollanum.  Drekk kaffið með mikilli ást og hugsa jákvæðar hugsanir, set ljúfa tóna á geislann, er einbeitt.

Kanski talar bollinn við mig og segir mér sögur, kanski.  Ég er viss um að allar þessar ljúfu og góðu hugsanir sem myndast eru til góðs, ef ekki fyrir mig þá hugsanlega fyrir þig.  Það er bara þannig.

Klukkan tifar áfram og við erum ekki hálfnuð að regnboganum, ég held fast í hönd þína og nærvera þín gefur mér kraft.  Það er gott að eiga vin.

Elskan dregur elsku að sér.

 


Þegar vetur klæðist vori ...

Að vaxa í rétta átt, þroskast og sjá hlutina í nýju ljósi.  Fá áhuga á einföldum hlutum, njóta þess að sjá hið stórkostlega í hinu gegnsæja.  Hið gegnsæja í sálinni, sjáaldrið eina.

Hring eftir hring fer hjólið, stígum við sporin, höldum heim.  Frá hinum fyrsta andardrætti til hins síðasta.

Klippimynd

Æðruleysisbænin

Svo heldur lífshjólið áfram og þú horfir á þá gnægð er fylgir þér, þér ósjálfbjarga er komst í heiminn.  Er skapar líf í lífi og nýtur þess að bjóða góðan dag, kyssa á lítið enni eða halda í hendina á ástinni.

Í huganum teikna ég frostrósir á gluggana því það er kalt í rakanum þótt hitastigið hangi yfir núlli.  Ég prjóna heila silkisæng og breiði yfir mig og læt mig dreyma um vorið, um fuglana og orkuna sem býr í umhverfinu.  Spænskur vetur er ekki svo afleitur í samanburði við margt.  Ég læt mig dreyma Heart

Ávextir

Smá litríkt kæruleysi

Kampavín og ávextir tilheyra sumrinu.  Við látum okkur dreyma um sumarið, svalandi bragð vatnsmelónunnar í bland við gylltan vökvann.  Nálgast ströndina, heyra lífið árla morguns, vakna og bjóða sjálfinu góðan dag.

Það getur verið gott að vera kærulaus og klæðast annari árstíð.


Á markaðnum

Á markaðnum
Rótarávextir
 
Við hjónin skruppum á útimarkaðinn síðastl. miðvikudag.  Ég hef mjög gaman að því að skoða grænmetið og ávextina og finna lífið í sölumönnum "dauðans".  Ósjaldan að konan kemur heim með einhvern óþarfa  sem er allt önnur ella.
 
Úr rótarávextinum má búa hin bestu soð tala nú ekki um ef eitt stk. laukur fylgir með í pottinn.
 
Í hádeginu eldaði ég þvílíkt yndislegan rétt sem ég verð að leyfa ykkur að prófa ...  Algjörlega nammigott!!!
 
1/2dl ólífuolía
1dl tómatur úr dós
1/2 ltr vatn
1 hvítlauksrif saxað
1 meðalstór laukur saxaður
...1/2 tsk kúmen
1/2 tsk karrý
1 hnefi spínat
100-200gr kjúklingabaunir
1 - 2 tsk soya (ketjap manis)
3 myntulauf
salt (hér verður hver að ráða eftir eigin behag)

Aðferð; olian hituð í potti og hvítlaukur og laukur gylltur og saltað, tómatnum bætt við og hrært varlega í með trésleif (mjög mikilvægt :-). Vatninu bætt út í og látið sjóða á vægum hita. Svo er restinni af hráefninu bætt út í og látið sjóða á sama væga hitanum. VOILA ....
 
Garbanzos en salsa
Einu sinni smakkað þú getur ekki hætt.
 
Olífur með litlum gúrkum
Olífur og gúrkur er himnesk blanda.
 
Megintilgangur göngutúrsins var að ná í herramanninn i skólann en hann fær að ráða hvort hann komi heim í mat eða borði í mötuneyti skólans.   Hann velur góðu dagana í mötuneytinu og þennan miðvikudag þótti honum matsetðill dagsins spennandi.  
 
Þegar við gengum hjá stand olífusalans þá bað sonurinn um bland í poka.  Hann valdi sér þessar olífur en úrvalið er glæsilegt.  Það má finna súrsuð þistilhjörtu, skarlottulauk og grænmetis pikkles.  Allskonar gott er bráðnar í munni.
 
Heil og dásamleg vika framundan með næg verkefni til að leysa.  Fara í skólann og sjá lýsingu á náminu sem ég er að fara í, vinna í heimasíðunni minni þegar ég verð komin með upplýsingar um virknina, halda áfram með nokkur verk á spænskum þakflísum.  Já, fullt af allskonar framundan.
 
Svona er nú gaman að vera ég W00t

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband