Hugarflug ...

Ég rétt náði að rífa upp á mér augnlokin í morgun, mikil ósköp sem þau voru límd aftur.  Þarf einfaldlega meiri svefn.  Fer of seint að sofa það er bara þannig!

Nú fer að líða að stundinni þar sem ég get sest út í ljósopið mitt með ilmandi íslenskt jurtate, tínt á leyndum stað á landinu góða.  Blóðberg, mjaðjurt og valhumall ef mig misminnir ekki, allt jurtir sem hafa sín góðu hrif á kvenndið.  Eg fékk þessa töfrablöndu gefins hjá Hafdísi frænku og Lovísu sem er líka frænka mín og þær mæðgur.  Takk fyrir blönduna InLove

Það er kaldara þennan morguninn, einungis 22° og 77% raki, klukkan er 0900.  Sumarið í sælulandi er samt enn til staðar.  Ég horfi upp í ljósopinu mínu og sé falleg dúnmjúk ský er forma allskonar myndir í huga mér.  Sólin er sein, hún er kanski þreytt eins og ég!

Á morgnana þá fer hugur á flug og allskonar hugsanir keppast við að ná athygli, sumar verulega óskýrar og aðrar koma fram eins og sælureitur á jörð.  Svo þarf ég bara að greiða úr þessum hugmyndum og raða þeim í tíma og rúm.  Átta mig á aðstæðum og því sem ég vil taka mér fyrir hendur.  Það vantar ekki verkin á þennan bæ en þetta er spurningin um það sem við viljum eða einfaldlega það sem við veljum okkur.

Velja sér að eiga góða daga, athafna sér í því sem við unum okkur, finna fyrir því gildi að gegna hlutverki, láta gott af sér leiða.  Allt einfaldir þættir er koma af stað jákvæðu ferli sjálfsins.  Það er ekki allt dans á rósum og við dílum og stríðum við eitt og annað sem herða okkur, slípa okkur  til. 

Við erum eins og grjótið í hafinu, endum eins og valan í flæðarmálinu.  Vinnuferlið er langt en það er svo mikið þess virði því útkoman er silkimjúkt sálutetur þegar upp er staðið.  Á leiðinni að settu marki er svo mikilvægt að njóta, þakka og gleðjast.  Hvað er það sem við viljum gera, rækta í okkur.  Hvað er það sem kallar á það besta í okkur.  Stundum erfitt að átta sig á þessum spurningum ....

Sættast við nútíðina okkar og njóta hennar í stað þess að lifa í því liðna eða í því sem við nefnum framtíð.  Lífið er núna, það kemur sólarlaust í hjarta mitt sem segir mér bara eitt.

Í dag er ég sólin sem snertir vanga þinn með geislum.  Ég skal fara varlega því við erum ólík svo afskaplega ólík þótt við séum í raun eitt í hvort öðru.  Það er þetta undarlega líf sem við lifum, líf úr lífi.  Nútiminn er til að njóta, leita inná við og sættast við það sem er.  Við getum alltaf breytt, við getum alltaf skipt um skoðun.  Við höfum leyfi til að lifa hlutverkið okkar eftir eigin getu.  Það er engin sem má ætlast til einhvers af þér því þú ert eina manneskjan sem ber ábyrgð.  Ábyrgðina á sjálfum þér.  Lífið verður ekki betra þegar hið smáa nær hjartanu og við náum valdi á því að vera.

Fjörusteinar

Fegurð í heimi steina

Í veru eilífðar búa steinar eins og menn.  Þeirra braut er líklega ekki ósvipuð og okkar eigin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég er ánægð að hafa þig opna hér aftur, knús

Ásdís Sigurðardóttir, 21.9.2011 kl. 12:20

2 Smámynd: www.zordis.com

Smá pása var nauðsyn   Nú fer kona að taka rúntinn á ný!

www.zordis.com, 21.9.2011 kl. 13:27

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

flott

Ásdís Sigurðardóttir, 22.9.2011 kl. 11:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband