5.12.2010 | 15:04
Tími til að njóta :-)
Ljúfur tími aðventunnar, kærleikans og samverunnar
Að sofa út, teygja vel úr kroppnum og setja jólalögin á geislann. Tek Björgvin og hans gesti af og set Bocelli undir og dunda mér áfram. Hjónakornin tóku sig saman og settu ísskápinn í jóladressið svo heimasætan leit í skápinn og hafði það á orði að hann væri tómur.
Ég; tómur
Hún, já það er ekkert í honum!
Ég; Hann er tandurhreinn stúlka.
Hún, ahhhhh er það, það.
Afgangsgrænmeti mallar á gashellunni og piparkökudeigið bíður eftir meðhöndlun. Það er eitthvað svo mikið kósý við rólegheitin sem líklegast eru í hjartanu. Það er þessi friður sem gerir lífið svona notalegt.
Ég vona að þú finnir það fallega í deginum, knúsir elskuna þína og njótir þess fallega sem er næst þér.
Ég ætla að senda familíuna mína í næsta bæ að knúsa tengdó en egoið ætlar að vera heima og njóta friðarins áfram.
Lífið gæti ekki verið betra, eða hvað?
1.12.2010 | 08:18
Morgunstundin ljúfa ....
Ég horfi á þig svartsleginn með gullið form á höfðinu, glæzilegur ertu kæri vin með þínar hnausþykku og stífu fjaðrir. Flögraðu nú uppí háloftin og færðu mér glýjuna er birtir í augum í þér.
Krunkaðu hátt og hafðu hægt því við erum svo mörg um þetta eilífðar kapphlaup. Ég sé djúpt í sál minni lífsbrot, þitt frelsi. Fljúgðu, fljúgðu hátt!
Miðvikudagsmorgun með kaffibolla í hönd, hugurinn flöktir eins og hvítt línið á íslenskum eftirmiðdegi. Ilmurinn af nýslegnu grasi teygir hönd sína í piparköku því jólin eru ekki svo langt frá. Ekki nema 23 dagar til jóla. Af nógu er að hyggja því allt á að gerast á svo skömmum tíma.
Allt hvað, spyr sálin sálina er rýnir í rjúkandi kaffibollann. Allt og ekkert, slaka á og njóta friðar. Fara jafnvel í guðshús og finna kærleikann er streymir í æðum okkar. Hlusta á kór líkamans er lifir daginn.
Það er hátíð á næsta leyti sem vonandi færir okkur öllum, kærleikann, friðinn og vonina.
Það er eitthvað svo jóló að sjá hann
rauðklæddan og rjóðann.
Sjálfan sveinka, hinn ljúfa
spúsuna sína kúra.
Fullsnemmt að segja gleðileg jól en gleðin ríkir þangað til.
22.11.2010 | 10:13
Gaudi garðurinn ...
Við mæðgurnar fórum í stelpuferð til Barcelona. Vöknuðum snemma á laugardeginum og vorum komnar um borð í lest kl. 0800 um morguninn og má segja að hún (lestin) hafi beðið eftir okkur (komum á síðustu stundu þar sem við misreiknuðum aksturstímann að heiman til Alc). Við tók tæpl. 6 klst lestarferð, við náðum að dorma drjúgan hluta leiðarinnar. Ég tók upp bók sem góð vinkona hafði lánað mér. Bókin "Karítas án titils", ég drakk orð bókarinnar í mig, var þessi þurri og fjarræni ferðafélagi er fletti ótt og títt bls. kiljunnar. Vá, hvað þetta er ÆÐISLEG bók.
Við komuna til BCN ákváðum við að ganga í átt að hótelinu. Komum við á tourist info og fengum kort og leiðbeiningar. Lögðum í hann keikar og tilbúnar í allt. Eftir tæpl. 2ja klst gang komum við að hótelinu, hálfgengnar upp að hnjám en það var í góðu lagi því svo mikið var að sjá og skoða. Háskólabyggingin, gosbrunnar og torg svo ég tali nú ekki um allt fólkið.
Meðal annars fórum við í Gaudi garðinn á Sunnudeginum ásamt Sigrúnu Höllu en megin og aðaltilgangur ferðarinnar var að hitta hana og eyða með henni sólarhring. Hún tók krók á leið sína frá París með tilkomu í Swiss. Yndislegur tími þótt stuttur væri.
Í Gaudi garðinum ....
Það var stórfenglegt að skoða Gaudi garðinn, skoða bygginarnar hvernig þær voru skreyttar í mósaík, fígúrur, dúfur og náttúra. Flott samspil náttúru og þeirra er stigu á svið Sunnudagsins. Við vorum komnar um 11 leytið í garðinn þá var nokkuð rúmt um gesti en er leið á morguninn varð garðurinn líflegri og ýmisleg "Kódak móment" komu til.
Í Gaudi garðinum.
Í Gaudi garðinum hittum við m.a. Carma sem er katalónska heitið á Carmen hinu spænska nafni. Carma er frábær listakona og við áðum lengi hjá henni, spjölluðum mikið og sagði hún okkur sögu og merkingu mósaík. Við keyptum af henni 2 vatnslitaverk alveg yndislega falleg. Mig langar nú þegar í fleiri verk eftir hana og þarf líklega að gera mér aðra ferð fljótlega hehe
Íris Hadda og Sigrún Halla í stuði við innganginn á Gaudi garðinum.
Hér erum við, við inngang Gaudi garðsins og þar tók á móti okkur manneskja inní mósaík grímubúning. Stelpurnar stilltu sér upp á móti smá greiðslu og ég smellti af. Góð minning um skemmtilega stelpuferð.
Þess má geta að það er enginn aðgangseyrir sem er nokkuð óvenjulegt þegar svo "smart" staður er skoðaður. Mikil fegurð og skemmtun í góðum félagskap.
Eftir heimsóknina í garðinn drifum við okkur á hótelið að taka saman föggur okkar. Við áttum að fara um borð í lestina kl.1500 og tíminn leið allt of hratt. Það var komið að kveðjustund okkar frænknanna. Tíminn leið á ógnarhraða en við notuðum hann líka vel
Mæli með ferð til Barcelona. Þess má geta að eftir 12 ára búsetu á Spáni þá er þetta í fyrsta skipti sem ég heimsæki borgina. Með ólíkum framandi borg. Á eftir að fara oftar og fer fljótlega á námskeið / work shop.
Dæs.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.11.2010 | 14:49
Mikilvægt að þvo sér um hendurnar eftir þvaglát ....
Ég rölti markaðsgötuna með Fjallinu og það vildi svo vel til að það byrjaði að rigna. Herramaðurinn var fljótur til að græja regnhlíf svo að drottningin hans kurlaðist ekki á hárinu. Er með svo púffý hár í raka, sem getur verið sætt nema hvað ég var nýbúin að slétta.
Við kíktum í bankann, viðskiptabanka og ætluðum að skipta seðli. Kassadaman spurði hvort við værum viðskiptavinir bankans en Fjallið sem var í hinum enda bankans taldi svo ekki vera, þá breyttist svipurinn á henni og hún sagðist ekki skipta. Ég greip nú til leikjar og sagði hátt og snjallt að við værum viðskiptavinir bankans en það væri nú ekki til að hrósa velvild bankans, fáránlegt að vilja ekki skipta við aðra einstaklinga. Þetta væri léleg þjónusta og mér væri það skapi næst að loka þeim 3 reikningum sem ég ætti hjá bankanum. Ég vandaði mig að tala hátt!
Sumir gerðu tákn með fingrunum til að sýna hvað þeir voru sammála mér. Ég verð svo yfirmig hissa á þjónustunni, svo yfirmig (set þessi 2 orð saman af miklum ásetningu) hissa á hvað sumir nentu ekki að gera vinnuna sína vel. Hverjum langar að vera viðskiptavinur í svona banka, ekki eins og við værum að koma inní útibúið í fyrsta skipti á ævinni.
Burt séð frá þessu þá breyti ég ekki heiminum nema ég byrji á sjálfri mér Ansi mikil vinna sem liggur þar sem þýðir að líklega hef ég ekki tíma í að taka kassadömuna í læri.
Ástarkrunk, akrýlmynd á pappastriga í ramma 14 x 14
Eftir bankann og viðeigandi orðasamskipti, héldum við hjónin áleiðis að skólanum þar sem ungherrann vildi fylgd heim að dyrum í hádegishlénu sínu. Við stöldruðum við á nokkrum sölubásum og keyptum m.a. Sevillana olífur með steinum, olífur fylltar með smágúrkum og ediklagðan lauk. Ég ætlaði að kaupa falleg afskorin blóm en hætti snögglega við það þar sem að blómasölumaðurinn hafði (á leiðinni bankann sá ég hann) Já, hann (blómasölumaðurinn) brugðið sér afsíðis og migið utan í frístundavegg og þar var sko enginn vaskur til að þvo hendurnar. Hverjum langar í afskorin blóm með svona húðkámi af prívatsvæði. Æjjjj, stundum á ég ekki að hugsa svona og líklega pirraði þetta mig og ég lét kassadömuna heyra það ......
Lífið er bara dásamlegt svona eftirá að hyggja.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.11.2010 | 11:16
Kaffisopinn ....
.... Það fyrsta sem ég gerði í morgun var að sjálfsögðu að opna augun. Úthvíld eftir góðan gærdag, varð ýmislegt ágegnt og naut þess að mála og leika mér og endaði svo daginn á spinning.
Ég er enn á náttfötunum, stuttbuxum og stuttermabol og klukkan er hádegi. Það er í lagi því í dag vinn ég heima og get verið nákvæmlega eins og mér hentar. Rjúkandi kaffið bunaði í rauðrósóttann bollann og rann ljúft niður. Ég útbjó morgunverð fyrir okkur hjónin þegar börnin voru farin í skólann og fékk mér annan kaffi
Alltaf gott að fá pönnuristað brauð í vömbina og skola niður með rjúkandi kaffi. Mitt í þessari heilögu stund veitti ég því athygli hvað það var mikið russlarý allstaðar. Ég greip til hendinni og kom þessum ósköpum í form þannig að nú er yfirborðsfínt hjá mér. Get sko alveg tekið á móti kaffigestum og jafnvel sett í pönnsur!
Nú sit ég með kallt kaffið og sötra á því og finn að það er líklega best að koma sér í einhv. fatnað og ljúka þessum morgni.
3 kaffibollar á dag koma skapinu í lag.
Lífið er ljúft og gott, stundum hrúft og vont en ávallt leiðir það okkur á réttu staðina.
9.11.2010 | 21:37
Pæjur það er málið ....
Ég sit og kubba, margir kubbar af milljón stærðum í allskonar litum. Ég raða þeim saman af handahófi og ég veit að í hvert sinn er ég bæti við þá kemur ríkari mynd á heildina.
Í huganum er lag sem sönglar af sjálfu sér, skemmtilegt íslenskt lag. Ég horfi á mig í speglinum og ávarpa mig sem aðra því ég er einhvern vegin ekki hér. Konan situr og raðar saman brotum í lífsmyndina sem hefur tekið skýrari mynd en samt má sjá heilmargt út úr því sem komið er. Við vitum hvorugar hvað þetta pússl býr yfir. Það er engin mynd til að fara eftir en samt smella einingarnar saman eins og flís við rass.
Svona er þetta stórmerkilegt, eitt skref í einu, eitt lag í einu og ein kona í einu. Í konunni búa margar myndir sem allar geta komið fram en það er bara ein mynd sem birtist í senn og hana þarf að vinna og lagfæra í takt við þann anda er umlykur sál hennar.
Konan þessi sem þykist vera ég á ALverstu stundum lífs míns fór t.d. í spinning í kvöld. Ég er að bremsa mig niður úr 5x í viku í 3x í viku og gengur það vel. Í kvöld var nýr kennari og það má segja að tíminn hafi verið hraður og góður. 515 kcal fuku sem var gott en þó aðallega eftirá. En að þjálfaranum, afskaplega huggulegur ungur maður og líklega sá fyrst sem ég sé og tek eftir að búinn er að raka nánast öll sýnileg hár af líkamanum nema höfðinu. Já, það er margt spes og þá hugsaði ég xxxxx Konan huxaði Mig langar að vera pæja. Já, ég er að verða pæja bráðum, ætla að vinna í því að pæja mig upp. Nýtt líf í nóvember mun væntanlega koma mér nær áfanganum áður en að Dekur í desember mánuðurinn hefst.
Lífið er gott með góða sál sem hefur svo margar leiðir, svo mörg mið ef markmiðin eru hnitmiðuð þá er ekkert sem stöðvar okkur. Hvorki þig né mig. Verum bara pæjur saman
Kaffikerlur eru pæjur
8.11.2010 | 21:25
Jóla-hvað?
...... Árviss viðburður, jólin og allt trummsið í kring um þau.
Jólin eins og við mæðgurnar þekktum þau frá litla Íslandi voru varla svo mikið frábrugðin því er við áttum að venjast.
Fyrstu jólin okkar voru með íslendingum, hefðbundin og ljúf. Við vorum tiltölulega nýkomnar til Spánar og vorum með tilhlökkun í hjartanu yfir nýja landinu okkar. Fyrstu jólin voru bara yndisleg.
Svo leið að öðrum jólum og við vorum báðar árinu eldri háklassa íslenskar jólasvkísur, föndruðum, máluðum köngla og sungum jólalög. Einn liður í jólunum voru sögurnar um Grýlu og Leppalúða, óþekktarormana jólasveinana og jólaköttinn.
Ekki vorum við peningamiklar, sú yngri 4 ára og sú eldri 30 ára en við létum það ekki aftra okkur. Sú eldri vann á veitingastað með gömlu breddunni (sbr. fyrri færsla) og nurlaði inn smá aurum fyrir leigu, mat og því nauðsynlegasta á meðan sú yngri nam spænskuna í skólanum og var bráðnauðsynlegur þáttur í lífi móður sinnar. Jólin voru á næsta leyti, önnur jólin okkar en að þessu sinni var okkur boðið á spænskt heimili að njóta aðfangadagskvölds.
Sú stutta fékk fallegan fínflauelskjól og borða í hárið Svo yndislega falleg sem snótin mín var. Við vorum báðar boðlegar og héldum í jólaboð sem við gerðum ráð fyrir að væri eins og við áttum að venjast en svo var nú ekki.
Við vorum þær einu prúðbúnu og það er fyndið að segja frá því að mér leið pínu skringilega þar sem hinir voru hversdags og lítill heilagleiki á hátíðarhaldinu. Í góðum félagsskap varð kvöldið undursamlegt þrátt fyrir ólíkar hefðir og venjur
Jólagleðin
Í ár munum við upplifa tólftu jólin okkar saman og verður það ánægjulegt. Okkur þykir gaman og ljúft að taka þátt í spænskum jólum því þegar upp er staðið þá er það kærleikurinn sem skiptir mestu máli. Ekki hvað klæðir hlaðborðin eða hylur hold okkar. Íslensku jólin eru þau sem búa í minningunni, þau sem foreldrarnir sköpuðu með börnunum sínum og þykir mér afskaplega vænt um íslensku jólin.
Ég er í jólaskapi í kvöld, en þú?
6.11.2010 | 17:24
Ferðalagið ....
... Í upphafi skyldi endinn skoða heyrði ég sagt. Það er skynsamlegt að ná að skoða endann vel áður en við leggjum í það. Lifa í örygginu og láta ekkert koma sér á óvart. Það er oft betra að hvíla vængina og kúra lengur í hreiðrinu í stað þess að stökkva af stað og svífa í þeirri óvissu með lendingarstaðinn.
Ég lagði af stað í ferð fyrir mörgum árum, var búin að skoða byrjunina þokkalega vel og viss það að ég var að fara. Ég fann að það var togað í mig úr öllum áttum, heyrði hvísl hér og hvísl þar.
Það var ekki eins og ég væri bundin fyrir og kæmist ekki hót. Með litla snót á arminum sem stóð vart úr hnefa ákvað ég að leggja land undir fót, fara því minn reitur var annarsstaðar. Við fengum meðbyr, unnum í lottó svo ferðalagið gæti orðið, við héldum af stað hýrar eins og strengjabrúður á vit ævintýranna.
Ég hugsaði aldrei eitt andartak að ég væri að gera eitthvað rangt, var viss að örlögin sem öskruðu væru að gefa mér réttar vísbendingar. Eftir ýmsan frágang, reddingar kyss og knús á fjölskyldumeðlimi hélt konan út í heim með litla ráðskonurassinn og var fyrsti áfangastaður Holland.
Við vorum fullar af ferðaþrá og í hjarta mínu var enginn ótti né efi um að ég væri að gera rangt. Ég hafði lagt af stað í ferðalagið okkar.
Ég var með allt sem ég átti í lífinu, litla stúlku í hægri hönd og ferðatösku í þeirri vinstri. Var spennt og tilbúin.
Það var kallað um borð og leið lá til Alicante. Spánn, við erum á leiðinni. Það var notaleg að koma til Spánar í lok nóvember.
Lífið er ekki alltaf dans á rósum en það er vissulega þess virði að prófa nýjar leiðir og gera nýja hluti. Við erum jafn fær og við erum viljug!
Síðan eru liðin 12 ár og lífið á Spáni hefur verið gott við okkur mæðgurnar enda höfum við eftir megni reynt að vera góðar við lífið. Það er gott að hugsa til baka og þakka ég fyrir það að hafa látið drauminn rætast. Einn af svo mörgum draumum.
Við eigum milljón drauma sem allir eru vel verðugir að draga fram í dagsljósið. Það þarf að sinna draumunum vel svo þeir rætist og halda vel utan um lífsgleðina er tendrar lífsleiðina okkar.
Í dag er lita hnátan mín 15 ára gömul, sjálfstæð eins og hún reyndar hefur ávallt verið. Dugleg stelpa og klár. Við búum í litlum og fallegum smábæ suður af Alicante með strákunum okkar. Annar nánast 45 og hinn 10. Við erum sko heppnastar af öllum
Ég man þegar ég byrjaði að vinna á veitingastað nánast ótalandi á spænskri tungu. Ég lagði mig fram við að gera hlutina vel og mætti jafnan fyrr til starfa og fór seinna heim. Eigandinn þá eldri kona sem allir óttuðust fékk eitthvað dálæti á mér eftir að ég lét hana heyra það. Hún var peningaóð og nokkuð gráðug. Ég sagði henni að allir peningar í heiminum gætu ekki fært henni hamingjuna og hún ætti kanski að íhuga að gera eitthvað fyrir sjálfa sig áður en það væri of seint. Lengi vel sendi hún dóttur minni gjafir þrátt fyrir að ég væri löngu hætt að starfa undir hennar stjórn.
Ég man ekki alveg hvað það var sem kom uppá en við grenjuðum báðar, ég kasólétt og hún var tekin afsíðis í róandi te. Ég hlæ létt inní mér þegar ég hugsa um þennan tíma, hvað það var erfitt á meðan á því stóð en eftirá gefandi. Ég fer stundum og heilsa uppá gömlu konuna í dag, hún er bitur blessunin í eigin skinni.
Af einhverjum völdum dettur mér lagið, hún var ung gröð og rík í hug. Segjum það gott í bili!
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.11.2010 | 16:07
Mig langar svo,
mig langar svo að lyfta mér á kreik
Fallegur dagur, sólin skín og skartar sínu fegursta, 25° um hádegisbil og ströndin var þéttsetin af busslurum og ofurkroppum er drukku í sig geislana. Það hefði verið notalegt að geta lagt svörtu fötin til hliðar og erlent verkefnið á hold en það var ekki í boði. Ég sat í fallegum BMW bíl, með ungum herramanni og viðskiptavinum mínum. Hugur okkar allra var annarsstaðar og líklega vorum við öll búin að koma okkur fyrir í sandinum með sólhlíf og góða bók.
Raunveruleikinn var annar og gagnasöfnun átti sér stað. Ég lauk deginum og hélt heim á leið eftir að hafa kvatt fólkið, unga manninn og náð í bílinn minn. Abba glumdi í geislanum og ég söng með, mamma mía er svo skemmtileg mynd og lögin gleðja endalaust.
Nýtt líf í Nóvember átakið heldur áfram, mikil vatnsdrykkja og grænmetis át ásamt mikill hreyfingu er mottóið. Ég finn strax hvað mér líður betur þótt að viktin segi ekki stórkostlegar tölur en samt! Ég er persónulega ekki fylgjandi viktinni því þú finnur best á fötum hvað þér gengur vel. Hins vegar er viktin ágætis viðmið.
Þótt að veðrið sé gott þá ber á haustinu, það gjólar meira og kvöldin eru kaldari. Köld kvöld og dimm kalla á kertaljósin er kveikja á því fallega er lifir í hverri sál. Í ljósloganum getum við fundið samhug sálar og horft inná við. Við ættum að gefa okkur tíma til að losa fallegar hugsanir úr læðingu og senda áfram svo kærleiksrík hringrás myndist. Haustin eru svo falleg svo undurfögur!
Kona með ávaxtaskál
Af ávöxtunum skulum við þekkja þá.
Voru það ekki Silli og Valdi sem voru með þetta slagorð?
2.11.2010 | 17:40
Kærleiksljómi
Ég heyri í umhverfinu þótt ég taki ekki þátt í andardrætti þess. Ungur drengur mótmælir lærdómi sínum, hann hefur engan áhuga og gerir þetta með hangandi hendi. Ef faðir hans stæði ekki yfir honum þá væri hugur hans í öðrum heimi. Mestu áhyggjurnar í loftinu er myrkrið er umvefur okkur slykju nætur.
Þegar konan leggur aftur augun opnast nýr heimur og hjartað tekur kipp, hugur flýtur eins og líkami í brimsöltum sjó. Hún sekkur ekki heldur finnur hreyfinguna í náttúrunni, andardrátt hins ferska er umvefur hana. Konan er örugg í eigin umhverfi, henni líður vel
Það er hins vegar ekkert öruggt, ekkert nema það eitt að við erum hér núna og ættum þ.a.l. að huga betur að þeirri tilveru er okkur var úthlutað. Í kærleikanum er svo margt fallegt, stundum sárt en umfram allt "rokkar" hann. Góð kona sagði mér að elskan færði elsku að sér, mikið er ég sammála þessari ljúfu konu því við getum hæglega laðað að okkur það besta, fengið það mesta með því að gefa á móti. Jafnvægið í lífinu, vega salt eins og 3já ára hnáta með þykka húfu og risadúsk, hlæja og vera frjáls.
Þessi 3ja ára hnáta getur verið jafn frjáls og hún var þá, meira meðvituð um stund og stað í sömu gleði og áður. Leikurinn heldur áfram, endalaust frá einni stjörnu til annarar Og þessi þriggja ára hnáta gæti verið þú nema um snáða ræddi.
Kærleiksljómi
Í nóttinni fæðast sögur og margir fara á stjá!