Færsluflokkur: Menning og listir

Á leið til himna ....

hvað er betra en kúrinn, undir hlýrri sænginni ..... dorma þó ekki á gormabedda því nú sefur konan á geimdýnu og veit fátt betra en að gæla við draumaheim á dúnmjúku skýji.

Við áttum notalegan gærdag og dagurinn í dag verður góður þar sem seinnipartinn í dag koma Los Reyes Magos sem eru það sem við þekkjum sem vitringana þrjá er færðu jesúbarninu gjafir.

Kóngarnir 3

Kóngarnir þrír á leið til barnanna

En talandi um kónga þá á Konungurinn Juan Carlos afmæli í dag.  Enn ein veislan sem sækir á okkur.  Fagna sjötugsafmæli þessarar elsku, lengi lifi konungurinn, húrra húrra húrra!  Til hamingju elskan mín .......

juan-carlos-i-rey-de-espana

Juan Carlos er sjötugur í dag, hann lengi lifir

Það er milt og gott veður, eilítið kalt en hér er enginn að kvarta.  Hvað er hægt að óska sér meira á þessum kóngabjarta fagra degi ??

Er að stripplast berfætt, fór í galleríið mitt og náði mér í striga, verð að tæma hugann með einhverju móti.  Seinnipartinn fer Fjallkonan í hælaháa skó, kjólinn og smá túpering í hárið, galvösk með börnin að kasta kveðjur á kóngana okkar.  Nú er spenna í litlum hjörtum sem bíða kóngagjafarinnar á degi þrettándans.  Á morgun seinnipartinn fara jólin sína leið, jafn snöggt og þau sóttu okkur heim.

Skál fyrir konungi Spánar, lengi lifi Spánn


Hvað ertu gömul elskan ....

... sagði amma mús áðan

Ég er 39 ára unglamb sem dreymir um að taka þátt í fegurðarsamkeppni.  Kona sem er vel greidd með kórónu, sem mátar skó sem passa allir og velur svo feikifallega "törkiss" bláa skó til að stíga um borð í einkaþotuna.

Skelfingar róa er ég eiginlega, 39 ára að taka þátt í fegurðarsamkeppni.  Kjóllinn fór vel um vömbina og skórnir nutu sín bærilega vel á fótafrárri frúnni.  Að ganga um eftir sviðinu var eitt en hvíti sundbolurinn og mín með Friðrikku í vetrarklæðum.  Sennilega feitasta fljóð sem gengið hefur um á sviði Ólafs Laufdal frá degi númer eitt. 

Alheimsfrægð og heimsyfirráð yrði bókað.  Times magasín og Geograpic international myndu ekki halda vatni yfir þessari vænu mær sem gengi eins og fjörlegasta hind eftir sviðinu ....

Beint í djúpu laugina

stundum er gott að láta bara vaða

Ég vaknaði með ógurlegan hjartslátt þar sem úrslitin voru ekki ljós.  Ég skal vinna, langfallegust sko, langelst og langfeitust.  Draumarnir okkar eru yndislegir ... látum þá alla rætast!

Nothing will stop me now!

Kæru bloggvinir, bestu þakkir fyrir allar kveðjurnar þið eruð dásamleg. 


Flikk flakk heljarstökk ......

Nýjar hugmyndir fæðast á meðan aðrar renna í sandinn eins og sporin sem við tókum saman.  Sjávarniðurinn færir okkur nýjar og ferskar hugmyndir sem eru jafn nýjar og þær sem aldrei voru nýttar.

Dagurinn í dag sá sem hefur haldið ferskleika í sál minni, síðasti dagurinn í árinu mínu. 

Í nótt slapp ég undan ógnarhendi morðingja, í nótt synti ég með höfrungum sjávar og voru hendur mínar þúsund silfraðir fiskar. Í nótt gerði ég svo margt undursamlegt!

underwater e. Elínu Björk

Undir vatni Olía á striga 20 x 20

Mér líður eiginlega eins og þessari glæsilegu hafmeyju sem vinkona mín Björkin málaði, er svo mikil hafpæja þessa dagana!  Þeir sem hafa áhuga á myndlist ættu að kíkja alveg óhikað á vinkonu mína www.bjorkin.com  .....  Njótið elskurnar mínar!

En, svona í upphafi þá var kommentað við eina mynd sem mig langaði alltaf að fjalla um.  Hér ræðir konuna með kisuna sína.  Konan elskar að vera hún sjálf og býr ekki yfir neinum höftum.  Konan er hannyrðakona og nýtur lífsins til fullnustu, hún er ástin sjálf.

kisuleikur

Hér er þessi elska og Síló situr spakur á meðan húsmóðirin mundar hnykilinn.

Fjallið sagði, "Fullgróf þessi" jú honum fanst nokkuð djarft af mér að teikna konu með grænan víbrador  í hendi.  Eða eins og einn sem kom við og sagði; örfhennt ....  Það góða við myndlistina er að við sjáum allt það sem við viljum út úr því sem okkur birtist.

Í sakleysi mínu sat ég og teiknaði minningu um kisuling og garnhnykil sem var orðið að æsilegum kynlífsleik, þar sem köttur var í kerfi orkumikils leikfélaga og innanstokksmunir litagleði leiksins.

Ég er á því að lífið sé það allra notalegasta og mæ god, hvað verð ég í næsta lífi ......

Flikk flakka heljarstökk, gargandi striginn æpir á mig og ég sé fram á að næturhúminn muni færa mig fjær í heim þess tóma sem telur upp litina, þess sem hvíslar ljóðin í innsta hvel hugans.

Góða nótt elskurnar mínar ......

Ég mun vaka á meðan nóttin tekur ykkur á vald sitt ....

Flikk flakk heljarstökk


Væna flís af feitum sauð ....

eða var það þakflísin ...

Svei mér þá!  Ég fór í leiðangur að leita að almennilegum þakflísum og sá hrikalega flottir rustic flísar sem voru hjúts, allt of stórar og þungar!  Keypti samt eina til að prófa og ætli ég máli bara ekki kynfæri á hana ( eða bara tækifæri ) ...  Setji flísina svo fyrir ofan hjónasængina, signa mig svo inn í svefninn. 

Allavega þá er ég komin heim með mjög áþekkar flísar en þó nokkuð hrjúfari sem koma bara vel út.  Æfingin skapar meistarann og þetta verður bara spennandi.  Er þegar byrjuð og líklegt er að ég spæni pennslana mína á þessu en það er svo sem ekkert átakalaust í þessum heimi, hvort sem það er í leik eða starfi.

Á nýju ári sé ég hlutina í grænum eða vínrauðum tón, gætu vel verið vínberjaáhrifin InLove segið svo að vínber séu ekki góð.  Rándýru jarðarberin eru enn í ísskápnum og þetta er alfarið spurning að ráðast í að gera súkkulaðitertuna og skreyta ber og með berjum.

Áramótin komu í sinni þægð og hægð, við áttum notalega kvöldstund, borðuðum góðan mat settum á okkur hárkollur og blésum í ílur ..... þegar klukkan var tekin að halla í miðnætti héldum við upp á kirkjutorg og gommuðum í okkur vínber (eitt við hvern klukknahljóm) og skáluðum í bleiku kampavíni. 

heimabrugg ....
Áramótakampavínið að fæðast

Sérhver er siðurinn í hverju landinu, dóttir mín setti pening undir matardiskinn og gullhring í kampavínsglasið (óáfengt barnakampavín) sem á að boða gæfu og meiri gæfu.  Spurning hvernig þetta endar allt saman.

Það stefnir allt í hangikjöt og uppstúf (kann ekki að gera uppstúf, en kann samt helling) ora baunir og rauðkál .... flatkökur og saltkökur (í stað laufabrauðs) ......  Já jólin eru ekki búin enn!

Ég veit að nýja árið hefur upp á svo margt að bjóða en það er með það eins og annað í þessu lífi.  Við móttökum og gefum í takt við tækifærin.  Síðasta ár var ótrúlegt og gjöfult, ég veit að þetta ár verður ekki síður notalegt en einhverjar fórnir þurfum við að færa sem er eðlilegt.

Við rýmum fyrir því nýja hvort sem það er veraldlegt eða andlegt.  Það eina sem við megum ekki gleyma og það er náungakærleikurinn og það að vera til staðar fyrir þá sem þurfa.

Réttum hjálparhönd

Stundum þykir okkur lítið til þess koma sem við gerum en það er oft margsverðugt í augum annara.  Ein lítil hjálparhönd getur veitt svo mikið og gefið svo margt.  Verum á varðbergi og gefum eina litla hjálparhönd til þeirra sem mest þurfa.

Göngum glöð inn í nýja árið.


Grænn köttur sem sækir á andann .....

Dagurinn hefur verið heldur betur notalegur.  Konan kúrði sem lengst í hjónasænginni og varð Fjallinu undrun ein af uppátæki hennar.  Dásamlegt að hvíla sig út árið svo ekki verður meira sagt!

Þegar dóttlan fór í stelpuafmæli og strákarnir mínir fóru í bíó, náði ég í striga og liti og "hestinn" minn og smellti skjannahvítum striganum á.  Ég ætlaði að klára aðra mynd sem fer í tækifærisseríu en draumurinn um græna köttinn hefur sótt á mig svo ég ákvað að láta slag standa .....

Græni kötturinn

Græni kötturinn er háðskur happafífill

Aldís og græni kötturinn

Aldís og græni kötturinn, Olía á striga 100 x 81

Myndin er í vinnslu, ég á ekki nógu góða pennsla því miður og þarf að ná fram betri strokum í kjólnum og svo þarf andlitið að þorna áður en það fær miðnæturmálninguna.

Ótrúlegt hvernig sumir draumar sækja á konu og það var víst ekki annað að gera en að koma þeim græna á strigann.  Fyrsta atrenna er búin og nú ilmar stofan af terpentínu og olíu.  Við erum sátt ég og sá græni ...... Aldís vill fá kjólinn sinn úr eðal flaueli svo á morgun verða keyptir fínustu olíupennslar til að geta alið henni fínan kjól fyrir nýja árið!

Þvílíkur unaðs og leti dagur, það kom að því að hann liti dagsins ljós, svona rétt áður en árið 2008 tæki við.  Nýtt ár, nýjir draumar og tækifæri eru handan við sólarhringinn ......  Ég er tilbúin að takast á við það sem nýja árið bíður.

Inn í nóttina býð ég ykkur ævintýranna sem aldrei komu, þeirra sem sækja á okkur áður en árið er liðið.  Ég vona að þið hafið það gott elþkurnar, með von um fallega drauma.

gleðilegt ár elskurnar


Þegar allt kemur ....

...margfallt og þúsundfallt þá óska ég viðkomandi bara til hamingju!

Fréttir morgundagsins höfðu áhrif á okkur en þar sem sjónhverfing og "dálítið" hafa með allt að gera, skirpi ég í lófana og segi ..... höhhh þetta hefur engin áhrif!

1000 þrasandi kerlingar og tíuþúsund tuðandi karlar gætu ekki haft mig úr stað.

Já, fréttir dagsins eru nú fallinn skuggi sem birtan framkallaði.  Liðið inn í fortíð og nú er að njóta þess nýja sem hugarflug og fiðrildi skapa í nýjum sköpum meistarans.

Galdrar

Já það veit engin að ég er búin að setja fræ í galdur

En lífið er stundum bara svona, stundum þannig að við erum ekki tilbúin nema að fá akkúrat þetta.  Lífið er mitt tækifæri!  Ég kom hingað til þess að lifa það og ég veit að þú vilt lifa það með mér .....

Lífið er salíbuna, uppfull af dásemdartækifærum.  Við veljum hvort við stöndum í geislanum eða skugganum eða fáum okkur líf með hvoru tveggja, sitt lífið af hverju.  Lífið er galdur, sá sem við upplifum saman! 

Ég flutti með mér blómálfana í húsið mitt, þeir sem vildu ekki koma með urðu eftir en þeir sem komu bjuggu blóm í jukkunni til að ferðast.  Ég hef ekki talað nógu mikið við vini mína undanfarið en ég segi ykkur satt að á síðasta degi ársins færi ég þeim ljós hins hvíta og bið fyrir velvild og kærleika í heiminn okkar.  Heimur sem er okkar allra ... elskurnar mínar lífið er sá litur sem við kjósum!

Gulur, Rauður, Grænn og Blár, pínu Fjólublár, Hvítur og Svartur allir í réttum tón ljóssins, þeirrar birtu sem okkur er ætluð.  Okkur er að sjálfsögðu ætlað það sem við treystum okkur til, þess sem við erum megnug, þess sem vinnur með okkur úr öðrum heimi.

 


Grænir kettir ...

Skrítið að dreyma grænan kött sem hafði konuandlit!  Andlit Aldísar í kattarlíki ..... Sé jafnvel fyrir mér málverk í grænum tón þar sem Aldís gælir við kisulúsina.

Dagurinn í dag er búinn að vera rólegur, ég fór seint á fætur þar sem græni kötturinn vildi gælur og atlot.  Vantaði orku inn í dýraheim sem er ekki fjarri. 

Graenn köttur

Grænn köttur

Í dag hafa iðnaðarmenn heimsótt okkur, sett nýtt stykki í arininn sem logar nú glatt.  Þegar þeir fóru kom byggingaraðilinn og leit á hitakútinn okkar og skömmu síðar mættu pípulagningamennirnir og skiptu út gömlu fyrir nýtt.

Í Kvöld borðar sonur minn ásamt vini sínum krókódílaskott (fiskur en þeir halda hitt) og hrísgrjón.  Ég léttsteikti þistilhjörtu á pönnu ásamt púrru og lauk, dassaði það með himalayasalti og sauð heilan haug af fersku brokkolýi.  Hlakka bara til að borða en með því græna og væna fæ ég mér blóðuga nautalund ásamt glútenlausri kaldri piparrótarsósu.

Solomillo = nautalundin mín

grænn dagur

Eftir matinn, mal uppþvottavélarinnar og næturkoss til barna ætla ég að halda áfram að mála.  Er að mála á striga, konu með blóm.  Ég er einhverf á myndefni en er alveg sátt við það sem ég er að gera í dag, svo miklu betra að vera sáttur og sæll.

Til gamans .....

Eldabuska

Eldabuska akrýl á þakflís

Já, það var nefnilega það.  þakflísamálun, nokkuð krúttað og kemur vel út á vegg.  Myndefnið varð að umræðuefni og Fjallið hafði á orði við mig afhverju ég málaði ekki eitthvað annað!

Góð spurning, sagði ég?  Sennilega af sömu ástæðu og þú málar ekki á flísarnar.

Ég á ekki fleiri flísar og ef þið heyrið fréttir af "ðe hamsterlady" í háloftum að ræna þakflísun þá hafið þið forskot á fréttina.  "Æm gona fly tonæt"

Elskurnar mínar nú er alveg að skella á helgi .... og árið er að líða sitt skeið.  Uppáhaldstíminn minn, þrifadagur framundan en nú skal rýma fyrir hreinum vættum og vinum.

Árið mitt með mið af afmælisdegi verður ár tækifæra, eitthvað nýtt gerist sem mun verða það allrabesta.  Hvað annað?  Svo fagna ég enn einu aldursárinu innan skamms .....

Eintóm hamingja og gleði!


Trilljónir ... Skrilljónadraumar .....

Draumar barna minna!

myndir sumar 2007

Mynd tekin í sumar í kvöldhitanum

Dóttir mín hefur átt þátt í því að vinningar þjóti heim í hús og ekki bara okkar.  Þegar við mæðgurnar unnum 100.000 ísl í Jokernum á sínum tíma, varð það til þess að líf okkar breyttir til muna.  Íris mín Hadda taldi í þaula einhverjar tölur sem ég skeytti litlu um þar til móðir mín skrifaði þær niður á blað og sagði "notaðu þetta, einhver er ástæðan fyrir þessari þulu" ..... Við unnum svo miklu meira en sex núll með einum fyrir framan.  Við fengum tækifæri sem við stukkum á.

Við seldum allt okkar og náðum að safna smá upphæð sem var nú svossum ekki há en hún var okkur næg til að prófa að þenja vængi tækifæranna!  Vinkona mín Lísa skvísa fór með mér í kolaportið og við seldum gamla kaffibolla, föndur og mér er minnistætt þegar hún sagði við konu sem var að skoða barnslega prinisessuteikningu. Kauptu hana því hún á eftir að meika það!  Eitthvað á þessa leið var samtalið og konan keypti teikninguna á smotterý.

krúttmolar
tíst og litlir vængir

Liður í búferlaflutningum Fjallkonunnar var vel á veg kominn og nokkrir skjálftar voru í hryggjarlínu suðurlandsundirlendis sem var bara gaman.  Undirbúningurinn tók 2 mánuði, spliss og bang, við mæðgur sátum í flugvél á leiðinni til Amsterdam og nú eru liðin rétt rúmlega 9 ár!

Litla krúttið mitt var alsæl að fara með mömmu sinni (vissi ekkert betur) hrikalega krúttaður krakki og móðir hennar prúð (hehe) ......  Spánn tók á móti okkur með sín hvora ferðatöskuna og fé til að lifa af næstu 6 mánuði.  Þessir 6 mánuðir eru orðnir að 9 árum og ekki skortir okkur neitt, ekkert sem gæti spillt fyrir okkur verunni.  Við erum búnar að næla okkur í Risastórt Fjall og lítinn júnior og búum saman í lítilli höll þar sem draumar verða að veruleika.

Trilljónir .... Skrilljónir happadrauma rata inn í höfuð barna minna.  Við erum á leiðinni að versla jólahappadrætti þar sem litlu krúttin mín hafa dreymt fyrir happinu.  Það eru margir sem gætu þegið aðstoð og ef leiðin er í gegn um happadrauma barna minna þá tökum við ábyrgð.

Stundum er hollt og gott að stökkva í stað þess að hrökkva

og stundum ekki.


Jólin okkar .....

Þann 24. des fórum við mæðgur í smá búðarráp!  Komum heim íþyngdar vörum jólasveinssins ... ( ekki varir hans heldur afurðir, bara svo það sé á hreinu ), þegar heim kom fórum við að huga að kvöldklæðnaði og gera okkur til farar.

Strákarnir höfðu farið út að hjóla, bærinn okkar var fullur af fólki sem sat á veitingarstöðum bæjarins, dreypandi á einhverju léttu, fólk í búðarrápi og fólk sem var að eyða deginum.  Hátíðleikinn með öðrum hætti sem alveg má venjast.

Fjölskylda mannsins míns hefur hins vegar hátíðlega stund og við borðum saman kvöldmat í tilefni dagsins og spilum svo jólalög á gítarinn og tröllum öll með.  Á miðnætti fórum við í messu og nutum okkar í kapellunni.  Það var gott að flögra í annan heim og hlusta á nunnurnar syngja, hlusta á prestinn góla og líða með söfnuði í andakt trúar sinnar.

Fólkið í röðinni fyrir aftan okkur kunni alla texta og ég varð ósjálfrátt örugg, vissi að hvergi slægi feilslag í texta frá okkar röðum Heart .....  Ég var komin á flug og fann sálarilinn og naut þess að vera.

Misa de Gallo

Miðnæturmessa í borginni Orihuela á Suðurhluta Spánar

Jóladagur hefur verið notalegur, við fórum á nýjan leik til tengdó og áttum góða stund með fjölskyldunni.  Það er stórkostlegt að ná til fólks og eiga vel saman, er hægt að  óska sér betra.

Carmen og Zordis

Tengdamóðir mín Carmen og málverk eftir tengdamóður hennar .....

Jólamatur

Smá jólajóla nart

Íris Hadda og Enrique

Stillt og prúð, langfallegust

24.des

Rafmagnið var að stríða okkur ....

Við áttum notalega stund og það sem stóð upp úr var góði félagsskapurinn, miðnæturmessan og það að geta upplifað enn ein jólin.  Börnin fóru að sofa um leið og heim var komið þar sem jólasveinninn átti að mæta eldsnemma að morgni 25 des.

já ..... og við foreldrarnir vorum rifin upp, engin miskun!

 

25.des

Jólatréð var ekki með marga pakka þar sem að pósthús bæjarins heldur verndarhendi yfir gersemum.  Spænsku jólin koma með sínum glæstu konungum þann 5janúar og að morgni 6jan á þrettándanum skilja þeir eftir kveðju til barnanna ...... held að prúðu börnin mín geti ekki kvartað að fá brot af því besta frá báðum foreldrum.  Jólin eru svo margt annað en pakkar og puðr þótt það sé vissulega gaman af gjöfum og gersemum, ekki misskilja!

Vona að þið getið notið stundarinnar öll sem eitt, sameinumst í bæn fyrir þeim sem eiga um sárt að binda.  Guð er með okkur öllum, gleiðileg jól!

 

 


Aðfangadagur

Eins og ekkert hafi í skorist kom dagurinn á sínum rétta tíma, birtan kitlaði nefbroddinn og lítil hönd snerti höku móður sinnar.  Litli krúttmolinn hafði skriðið í mömmuból rétt undir morgun!

Jólarósir syngja falleg lög á meðan kaffið rýkur á könnunni.  Bóndinn liggur enn í bólinu á meðan mamma raular heims um ból .... börnin horfa á sjónvarpsdagskránna og nú bíð ég eftir að alheimsFjallið vakni svo við komumst út á stjá.  Þurfum að viðra okkur smá .....

Ég legg mína sálu í þína
Ég legg mína sálu í þína

Aðfangadagur er í raun eins og hver annar í hjörtum heimilismanna.  Íslensku jólin eru nokkuð frábrugðin en fögnuður hinn sami.  Fæðing meistar Jesú (datt ósjálfrátt í hug Megas ...... wonder why)!  þegar líða tekur á daginn þá höldum við að heimili tengdaforeldra minna þar sem Frúin á bænum verður búin að gera ofursoð með vænni kjötbollu er vandlega er sett á djúpa skál.  Að auki er fleytifullt hlaðborð af sjávarmeti, rækjur, krabbaklær, þurrkuð hrogn, þurrkaður saltfiskur, skelfiskur steiktur á pönnu.  Ég er örugglega að gleyma einhverju en að auki, þurrkaðir ávextir, jólasvipurinn og kærleikurinn, gítarspil eftir kvöldmatinn, börnin leika sér ljúft á meðan við þessi fullorðnu skröfum og dreypum á spænsku turron-i sem er jólanammið okkar .....

Á miðnætti langar okkur að fara í messu er nefnist "misa de gallo", hlusta á gamlan prest kyrja en mest um vert að snerta friðinn í sálinni, biðja almáttugan að snerta við þeim sem eiga um sárt að binda, fyrir þeim sem berjast hetjulega fyrir lífi sínu, fyrir öllum dýrum og öllum mönnum sem taka þátt í spili lífsins.  Ég ætla að hreinsa sálina aðeins eftir ársuppsöfnun af allskyns sálarskít!  Ég tek fram að ég er ekki kaþólikki og fer með mínar bænir og mæti sennilega fyrir rétti hjá lyklapétri þegar þar að kemur, á meðan spænska fjölskyldan mín flýgur inn á milli manna ..... hehe

Þegar allt kemur til alls, enn einn dagurinn sem við njótum af réttlæti heims og manna.

Kæru vinir, töfrum í sameiningu, ást og frið til dýra og manna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband